Suárez gæti byrjað gegn Real Madríd

Luis Suárez.
Luis Suárez. AFP

Fyrsti leikurinn hjá Luis Suárez eftir að hann afplánar fjögurra mánaða keppnisbannið gæti verið stórleikur Real Madríd og Barcelona í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu 26. október.

Niðurröðun deildarinnar var gefin út í dag en hún hefst helgina 23.-24. ágúst og risaslagurinn er einmitt á þeim tíma sem bann Úrúgvæjans rennur út.

Barcelona gerir sér reyndar vonir um að fá banninu hnekkt, ef Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, dæmir Suárez í hag. Goal.com fullyrti í morgun að samkvæmt heimildum úr röðum CAS þætti dómurinn yfir honum alltof strangur og líkur væru á að Suárez gæti leikið með Barcelona þegar frá byrjun tímabilsins.

Barcelona keypti Suárez af Liverpool fyrir 75 milljónir punda fyrr í þessum mánuði en hefur ekki getað kynnt hann formlega fyrir stuðningsmönnum sínum þar sem hann er í algjöru banni frá afskiptum af knattspyrnu fyrir að bíta Giorgio Chiellieni, varnarmann Ítalíu, í leik þjóðanna á HM í Brasilíu í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert