Ranieri tekur við Grikkjum

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Ítalinn Claudio Ranieri hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Grikkja í knattspyrnu í staðinn fyrir Fernando Santos sem hætti störfum eftir að liðið var slegið út af Kostaríka í sextán liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í Brasilíu í sumar.

Ranieri er 62 ára gamall og var varnarmaður hjá Roma, Catanzaro, Catania og Palermo á árunum 1973 til 1986 og spilaði 363 leiki í ítölsku deildakeppninni.

Hann hefur stýrt fjölda félagsliða á 28 ára ferli sem þjálfari, var síðast með Mónakó í tvö ár en var sagt upp störfum þar í maí. Þar á undan stjórnaði hann Inter Mílanó, Roma, Juventus, Parma, Valencia, Chelsea, Atlético Madríd, Fiorentina, Napoli og Cagliari. Lengst var hann í starfi hjá Chelsea og Fiorentina, í fjögur ár hjá hvoru félagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert