Norskt félag erfði 74 milljónir

Sjálfsagt hefur enginn mætt oftar á völlinn á heimaleiki FL …
Sjálfsagt hefur enginn mætt oftar á völlinn á heimaleiki FL Fart en Erling Andreassen. Ljósmynd/FL Fart

Erling Andreassen var gallharður stuðningsmaður norska knattspyrnufélagsins FL Fart. Það sýndi sig svo um munar þegar erfðaskrá hans var skoðuð eftir að hann lést í síðasta mánuði, 90 ára að aldri.

Andreassen, sem lét hvorki eftir sig konu né börn, ákvað að láta allar sínar eignir renna til FL Fart, það er að segja þegar búið væri að greiða kostnað við jarðarförina sem hann vildi að yrði látlaus. Norska félagið fær 4 milljónir norskra króna, jafnvirði 74 milljóna íslenskra króna, auk íbúðar sem stendur nærri heimavelli félagsins.

Andreassen var á sínum tíma leikmaður Fart og hafði ávallt stutt vel við félagið. Síðustu ár var hann fastagestur á öllum heimaleikjum kvennaliðs félagsins og í frétt Hamar Arbeiderblad um málið segir að sjálfsagt hafi enginn séð fleiri leiki á heimavelli Fart.

Forráðamenn Fart hafa ekki ákveðið hvernig þeir muni ráðstafa peningunum en þeir munu nota hluta fjárhæðarinnar til að greiða niður allar skuldir félagsins. Þeir segja þó að ekki verði ráðist í leikmannakaup vegna hins nýfengna fjár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert