Hólmar í læknisskoðun hjá Rosenborg

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Ljósmynd/vfl-bochum.de

Hólmar Örn Eyjólfsson er kominn til Þrándheims í Noregi þar sem hann gengst undir læknisskoðun hjá knattspyrnuliðinu Rosenborg í dag. Ef allt fer að óskum skrifar Hólmar undir samning við félagið á morgun, samkvæmt heimildum mbl.is.

Hólmar, sem er 24 ára gamall miðvörður, hefur leikið með Bochum í Þýskalandi undanfarin þrjú ár og var áður í röðum enska félagsins West Ham í þrjú ár en West Ham keypti hann af HK árið 2008. Hólmar á að baki einn A-landsleik fyrir Íslands hönd og er methafi með 21-árs landsliðinu þar sem hann spilaði 27 landsleiki.

Hann verður þá annar Íslendingurinn til að spila með Rosenborg en Árni Gautur Arason varði mark liðsins frá 1998 til 2003, varð norskur meistari með liðinu öll árin og lék fjölda leikja í Meistaradeild Evrópu.

Rosenborg er í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar en fer uppí fjórða sætið í dag, takist því að vinna Start í leik sem er að hefjast í Þrándheimi. Félagið hefur orðið norskur meistari í 22 skipti frá árinu 1967 og vann deildina í þrettán ár í röð frá 1992 til 2004, en hreppti titilinn síðast árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert