Suárez falur fyrir 31 milljarð

Luis Suárez leikur í treyju númer 9 hjá Barcelona.
Luis Suárez leikur í treyju númer 9 hjá Barcelona. AFP

Þessa stundina er úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez kynntur formlega á blaðamannafundi á Camp Nou, heimavelli spænska stórliðsins Barcelona, sem nýr leikmaður liðsins. Suárez var þó forsýndur í gærkvöld þegar hann lék með Börsungum í 6:0-sigri á mexíkóska félaginu Léon.

Fram kom á sjónvarpsstöðinni Barca TV áðan að Suárez sé með klausu í samningi sínum við Barcelona að Börsungar verði að taka tilboði í hann frá öðru félagi sé tilboðið hærra en 200 milljónir evra eða því sem nemur rúmum 31 milljarði íslenskra króna.

Á blaðamannfundinum í Barcelona kom svo fram að Börsungar hafi greitt 65 milljónir punda fyrir Suárez en ekki 75 milljónir eins og talið hefur verið af fjölmiðlum til þessa.

Suárez fékk úthlutað treyju númer 9 hjá Barcelona, en hann mun væntanlega ekki leika fyrsta keppnisleikinn fyrir félagið fyrr en 26. október gegn Real Madríd, þar sem hann tekur út fjögurra mánaða leikbann fyrir að bíta Giorgio Chiellini varnarmann Ítalíu í landsleik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í knattspyrnu í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert