Arsenal skreið áfram - Rúrik úr leik

Alex Oxlade-Chamberlain, Arsenal og Ramon Motta varnarmaður Besiktas í baráttunni …
Alex Oxlade-Chamberlain, Arsenal og Ramon Motta varnarmaður Besiktas í baráttunni í kvöld. AFP

Arsenal skreið áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu með því að slá út tyrkneska liðið Besiktas í umspili fyrir riðlakeppnina. Liðin gerðu markalaust jafntefli í síðustu viku í Tyrklandi og í kvöld vann Arsenal nauman 1:0-sigur þar sem Sílebúinn Alexis Sánchez skoraði sigurmark Arsenal.

Rúrik Gíslason snéri aftur eftir meiðsli og kom inn á sem varamaður hjá FCK gegn þýska liðinu Bayer Leverkusen. Leverkusen burstaði Kaupmannahafnarliðið 4:0 og fór örugglega áfram í riðlakeppnina með því að vinna einvígið samanlagt 7:2.

Sænska liðið Malmö verður hins vegar fulltrúi Norðurlandanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vetur. Malmö sigraði Salzburg frá Austurríki í kvöld, 3:0 og vann viðureignina samanlagt 4:2.

Athletic Bilbao frá Spáni vann líka Napoli frá Ítalíu samanlagt 4:2. Leik kvöldsins lauk með 3:1-sigri Bilbao.

Einum leik er svo ólokið, því framlengja þurfti leik Ludogorets frá Búlgaríu og Staeua Búkarest frá Rúmeníu. Ludogorets var 1:0 yfir eftir venjulegan leiktíma og þar sem fyrri Steaua vann fyrri leikinn 1:0, þurfti að framlengja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert