Kessler: Gerir kvennafótboltann sýnilegri

Nadine Kessler situr fyrir svörum á blaðamannafundinum í Mónakó í …
Nadine Kessler situr fyrir svörum á blaðamannafundinum í Mónakó í gærkvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég átti alls ekki von á þessu og er ótrúlega stolt. Þetta er gífurlegur heiður og ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja," sagði Nadine Kessler, miðjumaður Wolfsburg og þýska landsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í Mónakó í gærkvöld eftir að hún var kjörin knattspyrnukona ársins í Evrópu tímabilið 2013-14.

Kessler var í stóru hlutverki hjá Wolfsburg sem varð bæði Evrópumeistari og þýskur meistari annað árið í röð og lagði upp sigurmark liðsins gegn Tyresö í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Lissabon í röð með snilldartilþrifum.

„Það er frábært að vera hérna, vera hluti af þessari miklu dagskrá og þeim heimi sem fylgir karlafótboltanum. Það er stórkostlegt fyrir okkur að vera með í þessu," sagði Kessler en kjörinu á bestu knattspyrnukonunni var í fyrsta sinn lýst með kosningu í beinni útsendingu í Mónakó eftir að dregið hafði verið í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki.

„Ég tel að allar viðurkenningar af þessu tagi hjálpi til við að gera kvennafótboltann sýnilegri, við erum þakklátar fyrir að þær skuli vera veittar, og vonandi hjálpa þær til við að gera íþróttina okkar vinsælli," sagði Kessler á fundinum.

Wolfsburg varði Evrópumeistaratitilinn en sagði að sigurinn á Tyresö í vor, 4:3 í Lissabon, hefði verið öðruvísi en þegar liðið lagði Lyon vorið 2013.

„Það er erfitt að bera þennan sigur okkar við þann í fyrra þegar við komum á óvart með því að vinna Lyon. Núna vorum við sigurstranglegri, en það var stórkostleg stund að vinna titilinn á allt annan hátt, gegn erfiðum mótherjum. Við áttum erfiðari leið að titlinum í þetta sinn og erum geysilega stoltar af því að geta sagt að við höfum endurtekið afrekið."

Wolfsburg lenti 0:2 og 2:3 undir í úrslitaleiknum gegn Tyresö í Lissabon en náði að svara fyrir sig og halda Evrópumeistaratitlinum.

„Ég vissi að þetta yrði erfitt en hafði alltaf trú á að við gætum snúið blaðinu við. Þó Tyresö kæmist yfir vorum við alltaf vissar um að við gætum unnið, vegna þess að það voru okkar mistök sem færðu þeim forystuna, og við fengum góð færi á meðan. Liðsheildin og samheldnin í liðinu eru einstök og við fengum aldrei á tilfinninguna að leikurinn væri að tapast."

Kessler var spurð um framtíðina í kvennafótboltanum.

„Meistaradeildin er alltaf að verða sterkari og fleiri lið koma til greina í baráttunni eftir því sem fleiri félög leggja áherslu á sín kvennalið. Liðin eru alltaf að verða öflugri, bestu liðin fá sífellt meiri keppni. Mörg lið geta unnið stærstu titlana og því er þetta allt á réttri leið," sagði Nadine Kessler.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert