Vongóðir um að halda Viðari

Viðar Örn hefur skorað 24 mörk á sínu fyrsta tímabili …
Viðar Örn hefur skorað 24 mörk á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Ljósmynd/vif-fotball.no

Kjetil Rekdal þjálfari Vålerenga segir að góðar líkur séu á að félagið verði áfram með Viðar Örn Kjartansson í sínum röðum á næsta ári.

Viðar hefur farið hamförum í norsku úrvalsdeildinni og eftir þrennu gegn Haugesund um helgina er hann kominn með 24 mörk á tímabilinu, og bætti þar með markametið í sögu Vålerenga. Hann getur enn náð markametinu í sögu norsku úrvalsdeildarinnar sem er 30 mörk.

Ljóst er að stærri félög utan norsku úrvalsdeildarinnar renna hýru auga til Viðars en Rekdal sagði við Dagbladet að góður möguleiki væri á að Selfyssingurinn yrði hjá Vålerenga áfram.

„Það er mikill möguleiki á því. Mjög mikill,“ sagði Rekdal, þrátt fyrir mikil fjárhagsvandræði Vålerenga. Talið er að fjárfestirinn Tor Olav Tröim gæti haft með það að gera hve vongóður Rekdal er, og aðspurður hvort Viðar fái nýjan og betri samning sagði þjálfarinn:

„Þegar kemur að innihaldi og lengd samninga þá er það ekkert til að ræða við fjölmiðla. En það segir sig sjálft að við viljum verðlauna góða frammistöðu. Það er alveg ljóst,“ sagði Rekdal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert