Lagerbäck: Malmö gæti krækt í nokkur stig

Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara karlaliðs Íslands í knattspyrnu.
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara karlaliðs Íslands í knattspyrnu. mbl.is/Eggert

Svíinn Lars Lagerbäck, annar þjálfara karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, er hóflega bjartsýnn fyrir hönd landa sinna hjá Malmö sem í kvöld verður fyrsta sænska liðið til að spila í Meistaradeild Evrópu í 14 ár.

Malmö er í riðli með Juventus, Atlético Madrid og Olympiacos svo það er ljóst að sænska liðið á gríðarlega erfiða leiki fyrir höndum. Liðið byrjar á því að sækja Juventus heim til Tórínó í kvöld.

„Það er best að byrja annaðhvort á heimavelli gegn lakasta liðinu, eða á útivelli gegn því besta. Það er ekkert hræðilegt að lenda í því síðara,“ sagði Lagerbäck við Kvällsposten. Ætla má að Malmö verði helst í baráttu við Olympiacos um 3. sæti riðilsins.

„Maður þarf að vera bjartsýnn og raunsær, en ef menn halda að liðið geti farið áfram úr riðlinum þá þurfa þeir að vera svakalega bjartsýnir. Ef Malmö spilar eins skipulega og af sömu klókindum og gegn Salzburg (í forkeppninni) þá getur liðið krækt í nokkur stig,“ sagði Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert