Alfreð leikfær og talar spænsku - myndband

Alfreð Finnbogason lék Evrópuleiki fyrir Real Sociedad en meiddist í …
Alfreð Finnbogason lék Evrópuleiki fyrir Real Sociedad en meiddist í þeim og bíður þess að leika sinn fyrsta leik í spænsku deildinni. Ljósmynd/Rubén Plaza

Eftir að hafa búið á Spáni í rúma tvo mánuði gat framherjinn Alfreð Finnbogason svarað spurningum fréttamanna á spænsku fyrir komandi leik Real Sociedad og Almería í spænsku 1. deildinni, sem gæti orðið fyrsti deildarleikur Alfreðs fyrir Sociedad.

Alfreð samdi við Sociedad í júlí eftir að hafa orðið markakóngur í Hollandi og eru miklar vonir bundnar við hann hjá stuðningsmönnum félagsins. Alfreð kvaðst ekki vilja lofa upp í ermina en að hann ætlaði sér svo sannarlega að hjálpa liðinu við að skora mörk, sem hann hefði sjálfur alltaf gert hjá sínum liðum.

Alfreð segist hafa getað æft tvær síðustu vikur af fullum krafti eftir að hafa verið úr leik í 40 daga vegna meiðsla, en hann fór úr axlarlið í Evrópuleik gegn Aberdeen. Hann kveðst spenntur að spila fyrir framan stuðningsmenn Real Sociedad eftir að hafa fylgst með þeim í sigrinum á Real Madrid fyrir skömmu, sigri sem hafi sýnt að Real Sociedad geti unnið hvaða lið sem er.

Myndbandið hér að neðan sýnir Alfreð svara fyrir sig á fréttamannafundi á því sem Radio Intereconomía kallaði „ásættanlega spænsku“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert