Eiður skoraði gegn Brann

Eiður Aron Sigurbjörnsson í leik með ÍBV í sumar.
Eiður Aron Sigurbjörnsson í leik með ÍBV í sumar. mbl.is/Sigfús Gunnar

Eyjamaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson bættist í kvöld í hóp íslenskra markaskorara í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann gerði mark Sandnes Ulf þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Brann á útivelli.

Eiður kom til liðs við Sandnes í ágúst, fór þá frá ÍBV þegar Örebro í Svíþjóð, þar sem hann er samningsbundinn, lánaði hann til norska félagsins. Hann lék í kvöld sinn annan leik og kom Sandnes yfir á 52. mínútu. Amin Askar jafnaði fyrir Brann tíu mínútum síðar og þar við sat.

Hannes Þór Halldórsson varði mark Sandnes að vanda og Hannes Þ. Sigurðsson lék allan leikinn í fremstu víglínu liðsins. Eiður var á sínum stað í vörninni allan tímann.

Sandnes Ulf situr á botni deildarinnar með aðeins 15 stig þegar sex leikjum er ólokið og hæpið er að liðið nái að halda sér uppi. Brann er með 23 stig í fjórða neðsta sæti en á milli eru Haugesund og Sogndal sem eru með 21 stig og eiga leik til góða. Tvö neðstu liðin falla og það þriðja neðsta fer í umspil.

Birkir Már Sævarsson kom inná sem varamaður hjá Brann undir lok leiksins en hann hefur mátt verma varamannabekkinn undanfarnar vikur eftir að hafa  vart misst úr leik um árabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert