Lars: Staða Svía ekki mitt vandamál

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson stýra landsliði Íslands.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson stýra landsliði Íslands. mbl.is/Eggert

Sænska dagblaðið Expressen vekur athygli á því að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, undir stjórn Lars Lagerbäcks, sem stýrði því sænska um árabil, skuli vera komið í 34. sæti heimslistans á sama tíma og sænska liðið hefur fallið niður í 32. sæti.

Nýr listi var gefinn út í gær og þá hækkaði Ísland sig um tólf sæti á meðan Svíþjóð seig niður um þrjú. Fyrir aðeins tveimur árum var Ísland í 131. sæti en Svíar hafa oftast verið mun ofar en þetta.

Lagerbäck segir í samtali við blaðið að það sé alls ekki sitt keppikefli að komast ofar en Svíþjóð á FIFA-listanum. „Alls ekki, þó sænska liðið sé keppinautur minn í dag eins og önnur landslið, þá vil ég að því gangi vel líka," segir Lagerbäck.

„Staða sænska liðsins er ekki mitt vandamál, en þetta gerist þegar maður vinnur leiki, svo einfalt er það. Það er gaman að við skulum hækka okkur svona. Við vorum búnir að setja okkur það markmið þegar við tókum við liðinu að komast í námunda við 50. sætið eftir tvö ár. Nú höfum við náð því og það er bara gaman," segir landsliðsþjálfarinn sem stýrði Svíum á hverju stórmótinu á fætur öðru á sínum tíma.

Blaðið spurði hann út í einstaka leikmenn Íslands og hvort Gylfi Þór Sigurðsson myndi ekki auðveldlega eiga fast sæti í sænska landsliðinu.

„Besta leiðin til að meta einstaklingana er að skoða í hvaða deildum þeir spila og hvort þeir séu lykilmenn í sínum liðum. En svo getið þið tekið miðvörðinn Kára Árnason og borið hann saman við Andreas Granqvist. Vissulega spilar Granqvist í mun betra liði, en ég held að það sé mjög lítill  getumunur á þeim. En ég vil ekki reyna að velja sameiginlegt lið þjóðanna, það er of viðkvæmt. Þá fengju menn eitthvað til að setja í fyrirsagnir," segir Lars Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert