Vill HM burt frá Katar

Mörgunm þótti nóg um sólina og hitann í Brasilíu í …
Mörgunm þótti nóg um sólina og hitann í Brasilíu í sumar þegar HM í knattspyrnu fór fram. Aðstæður verða enn verri á HM í Katar eftir átta ár. AFP

Theo Zwanziger, sem sæti á í framkvæmdastjórn Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, telur næsta víst að heimsmeistaramótið í knattspyrnu karla fari ekki fram í Katar árið 2022 eins og til stendur. Útilokað sé að halda keppnina að sumri í Katar í steikjandi sterkju hita.

„Þótt Katarmenn ætli sér að kæla niður andrúmsloftið á leikvöllunum og á æfingasvæðum fyrir leikmenn liðanna þá dugir það ekki. Við getum ekki boðið  gestum keppninnar upp á þær aðstæður sem eru í Katar að sumri. Þær eru lífshættulegar.  Það er mín skoðun," segir Zwanziger. Lofthiti í Katar fer iðulega yfir 40 gráður á sumrin og stundum nærri 50 gráðum á celsíus.

Ákveðið var fyrir fjórum árum síðan að HM 2022 í knattspyrnu karla 2022 fari fram í Katar. Allar götur síðan hefur ákvörðun FIFA verið  gagnrýnd.  Meðal annars hafa verið uppi hugmyndir um að halda heimsmeistaramótið að vetri til en það hefur ekki hlotið hljómgrunn víða. 

„Ég er þeirrar skoðunar að keppnin fari ekki fram í Katar eftir átta ár,“ segir Zwanziger. 

Sepp Blatter, forseti FIFA, sagði í maí að það hafi verið mistök að úthluta Katar mótinu en nauðsynlegt væri að leita leiða til þess að halda keppnina að vetri til en ekki um sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert