Enrique kennir Ter Stegen ekki um

Marco Verratti skorar án þess að Marc-André ter Stegen komi …
Marco Verratti skorar án þess að Marc-André ter Stegen komi vörnum við í leiknum í París í gær. AFP

Luis Enrique þjálfari Barcelona segist ekki vilja kenna markverðinum Marc-André ter Stegen um 3:2-tapið gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Barcelona hafði ekki fengið á sig mark á tímabilinu til þessa en Claudio Bravo hefur varið mark liðsins í spænsku deildinni og haldið hreinu í öllum sex leikjunum þar. Ter Stegen hélt hreinu gegn APOEL í fyrsta leiknum í Meistaradeildinni, en fékk á sig þrjú mörk í París í gærkvöld og þótti sérstaklega geta gert betur í 2. og 3. marki heimamanna. Enrique vildi þó ekki taka Þjóðverjann sérstaklega fyrir.

„Ég vil ekki taka einhvern einn leikmann fyrir þegar við töpum leik. Við berum allir ábyrgð, sérstaklega ég,“ sagði Enrique sem upplifði sitt fyrsta tap sem þjálfari Börsunga.

„Við skoðum gaumgæfilega hvað fór úrskeiðis til að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Við gerðum mjög augljósar villur þegar við vorum að færa boltann fram úr vörninni. Þeir voru mjög sterkir í föstum leikatriðum og þegar maður lendir undir þá kostar það gríðarlega vinnu að komast aftur inn í leikinn,“ sagði Enrique.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert