Getur bætt Evrópumet Sigga Jóns

Martin Ödegaard hefur þegar leikið einn vináttulandsleik fyrir Noreg og …
Martin Ödegaard hefur þegar leikið einn vináttulandsleik fyrir Noreg og gæti nú átt eftir að spila fyrstu mótsleiki sína síðar í mánuðinum. AFP

Ef Norðmaðurinn Martin Ödegaard fær að spila í öðrum þeirra leikja sem framundan eru hjá norska landsliðinu í undankeppni EM í knattspyrnu verður hann yngsti leikmaðurinn til að spila í sögu keppninnar.

Skagamaðurinn Sigurður Jónsson var aðeins 16 ára og 251 dags gamall þegar hann spilaði fyrir Ísland gegn Möltu í undankeppni EM árið 1983. Þar með setti hann met sem enn stendur í sögu undankeppni Evrópumótsins.

Ödegaard er hins vegar vís til að slá metið og það með afgerandi hætti. Hann verður aðeins 15 ára og 298 daga gamall þegar Noregur mætir Möltu þann 10. október í leik þar sem líklegt þykir að þessi bráðefnilegi leikmaður Strömsgodset komi við sögu.

Siggi lék með fjórum landsliðum á sama ári

Sigurður Jónsson mun þó áfram eiga metið yfir það að vera yngstur Íslendinga til að spila landsleik. Honum var fagnað með miklu lófaklappi þegar hann kom inná fyrir Pétur Pétursson í leiknum gegn Möltu, í júní 1983. Hann spilaði þar með með fjórum landsliðum á sama árinu; U16, U18, U21 og A-landsliðinu.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um þennan fyrsta landsleik Sigurðar segir að hann hafi komist mjög vel frá sínu og sýnt að hann búi yfir miklum hæfileikum.

Var í sigti Barcelona

„Ég fann ekki fyrir neinni spennu eða óþægindum þegar ég vissi af því að ég ætti að fara inná í leiknum. Mér hefur verið vel tekið í landsliðshópnum og andrúmsloftið er þægilegt. Lið Möltu var nú frekar slakt að mínum dómi og ekki erfitt við þá að eiga,“ sagði Sigurður við Morgunblaðið eftir leik. Hann var svo spurður hvort hugurinn stefndi ekki í atvinnumennsku.

„Já, ég hef mikinn áhuga á því en mun ekki ana að neinu. Ég hef gaman af því að leika knattspyrnu og fái ég eitthvert gott tilboð mun ég athuga það vel. Ég veit að F.C. Barcelona ætlar að fylgjast eitthvað með mér. En tíminn verður að skera úr um hvað verður,“ sagði Sigurður. Hann gekk í raðir Sheffield Wednesday haustið 1984 og fór þaðan til þáverandi Englandsmeistara Arsenal árið 1989.

Yngstu leikmenn í sögu undankeppni EM:

1. Sigurður Jónsson (16 ára og 251 daga)
2. Peter Jehle, Liechtenstein (16 ára og 265 daga)
3. Levan Kenia, Georgíu (16 ára og 325 daga)
4. Daniel Frick, Liectentstein (17 ára og 79 daga)
5. Ronny Büchel, Liechtenstein (17 ára og 82 daga)
6. Gareth Bale, Wales (17 ára og 83 daga)
7. Vagif Javadov, Azerbaijan (17 ára og 100 daga)
8. Romelu Lukaku, Belgíu (17 ára og 113 daga)

Sigurður Jónsson var tekinn tali af Morgunblaðinu eftir fyrsta landsleik …
Sigurður Jónsson var tekinn tali af Morgunblaðinu eftir fyrsta landsleik sinn. Skjáskot úr Morgunblaðinu
Sigurður Jónsson þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu og gekk í …
Sigurður Jónsson þótti einn efnilegasti leikmaður Evrópu og gekk í raðir þáverandi Englandsmeistara Arsenal árið 1989 en erfið bakmeiðsli bundu enda á veru hans hjá félaginu. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert