Þjálfari AGF ánægður með Helga

Helgi Valur Daníelsson á landsliðsæfingu.
Helgi Valur Daníelsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eva Björk

Morten Wieghorst, þjálfari danska knattspyrnuliðsins AGF frá Árósum, kveðst hæstánægður með nýjasta liðsmann félagsins, íslenska landsliðsmanninn Helga Val Daníelsson, sem kom til félagsins í haust frá Belenenses í Portúgal.

AGF féll úr dönsku úrvalsdeildinni í vor og allt púður er sett í að koma liðinu strax aftur upp en félagið hefur lengst af verið í efstu deild. AGF er í öðru sæti B-deildarinnar með 17 stig eftir 9 leiki, fimm stigum á eftir toppliðinu Viborg en á leik til góða.

„Mér finnst Helgi hafa byrjað vel hjá félaginu og hann hefur tekið við því hlutverki sem við vonuðumst eftir. Hann kemur með mikla ró í liðið, en um leið finna samherjarnir vel fyrir nærveru hans á vellinum. Svo er hann klókur í að lesa sendingar mótherjanna og komast inní þær, og hefja þannig okkar sóknir. Hann hefur spilað tvo leiki með Jens Jönsson á miðjunni og það hefur gengið vel, en ég er viss um að Helgi á eftir að verða ennþá betri," sagði Wieghorst í viðtali við staðarblaðið Århus Stiftstidende.

Helgi kveðst sjálfur vera ánægður með byrjunina. „Þetta hefur verið virkilega góð byrjun og ég er ánægður með að hafa komist strax í gang. Nú hef ég bæði spilað sem miðvörður og svo á miðjunni, þar sem ég vil helst spila, svo það hefur verið ágætt að prófa sig í mismunandi stöðum. Ég er ánægður með það hlutverk sem ég hef nú fengið á miðjunni því það er staðan sem ég þekki best og hef spilað mest á mínum ferli," segir Helgi við blaðið en hann kveðst hafa þurft að venja sig við aðra leikaðferð eftir að hann kom til AGF.

„Í Portúgal nálgaðist Belenenses leikina á allt annan hátt. Við vörðumst mikið, það var alltaf okkar leikplan, og vorum ekki mikið með boltann, en þetta er þveröfugt hjá AGF. Ég þurfti að innstilla mig á þetta en það gengur fínt og það er gaman að spila með liði sem er með þennan leikstíl. Við sköpum okkur fullt af færum og erum í formi til að pressa mótherjana vel, og það er spennandi að taka þátt í þessu," segir Helgi.

Hann segir að eini gallinn við dvölina í Árósum sé sú að fjölskyldan sé enn ekki komin þangað. „Fjölskyldan er enn í Portúgal þar sem börnin eru í skóla, og þau verð þar þangað til í janúar. Það er erfitt að vera án þeirra en ég er ánægður með að vera í Árósum og mér sýnist þetta vera skemmtilegur bær og stuðningurinn góður. Liðsfélagarnir hafa tekið vel á móti mér og svo er alltaf gaman að vera í liði sem vinnur leiki," segir Helgi en Belenenses slapp naumlega við fall í Portúgal síðasta vor.

Helgi er 33 ára gamall og hefur spilað 32 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann lék áður með Fylki, enska liðinu Peterborough, sænsku liðunum Öster, Elfsborg og AIK og þýska liðinu Hansa Rostock en samdi við Belenenses sumarið 2013. Auk Helga er Orri Sigurður Ómarsson, 19 ára varnarmaður úr 21-árs landsliði Íslands, í leikmannahópi AGF, en hann kom uppúr unglingaliði félagsins í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert