Þúsund mínútur án marks í Evrópukeppni

Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni um boltann í leiknum gegn APOEL …
Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni um boltann í leiknum gegn APOEL í fyrrakvöld. AFP

Það gengur hvorki né rekur hjá íslenska landsliðsframherjanum Kolbeini Sigþórssyni að skora fyrir lið sitt Ajax í Evrópukeppni. Þrátt fyrir fín færi tókst honum ekki að skora gegn APOEL í Kýpur í fyrrakvöld, í Meistaradeild Evrópu.

„Við hefðum átt að vinna leikinn,“ sagði Kolbeinn eftir 1:1-jafntefli við APOEL. „Ég hefði átt að skora. Því miður tókst það ekki. Mér líður vel og þetta er á uppleið en ég get gert enn betur,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn hefur nú leikið nákvæmlega 1.004 mínútur fyrir Ajax í Evrópukeppni án þess að skora. Síðast þegar hann skoraði í Evrópukeppni var hann leikmaður AZ Alkmaar og skoraði tvö mörk í 3:0-sigri á BATE Borisov síðla árs 2010. Kolbeinn skoraði einnig í fyrri leik liðanna en það eru einu þrjú mörkin sem hann hefur skorað í 22 Evrópuleikjum.

Kolbeinn, sem hefur skorað 16 mörk í 24 landsleikjum, komst næst því að skora mark í Evrópukeppni fyrir Ajax á Camp Nou á síðasta tímabili. Kolbeinn tók þá vítaspyrnu gegn Barcelona en Victor Valdés sá við honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert