Aron af stað á ný í kvöld

Aron Jóhannsson í leik Bandaríkjanna og Gana á HM.
Aron Jóhannsson í leik Bandaríkjanna og Gana á HM. AFP

Aron Jóhannsson, landsliðsmaður Bandaríkjanna í knattspyrnu, leikur í kvöld sinn fyrsta leik síðan hann spilaði með bandaríska liðinu gegn Gana á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í sumar.

Aron lék í 70 mínútur eftir að hafa komið inná í leiknum við Gana, sem var fyrsti leikur bandaríska liðsins á HM, en kom ekki við sögu eftir það. Hann glímdi við meðsli og fór síðan í uppskurð að keppninni lokinni, og hefur ekkert spilað með AZ Alkmaar það sem af er keppnistímabilinu í Hollandi.

Í kvöld er Aron í hópi varaliðs félagsins, Jong AZ, sem mætir Utrecht og gert er ráð fyrir því að hann komi við sögu í leiknum, samkvæmt frétt á vef AZ.

Aron hefur þegar misst af fyrstu niu leikjum AZ í úrvalsdeildinni en gæti nú komið við sögu með liðinu á laugardaginn kemur þegar það tekur á móti Groningen. Hann varð þriðji markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili með 17 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert