Ronaldo er ósáttur

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu á Anfield í gærkvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu á Anfield í gærkvöld. AFP

Cristiano Ronaldo leikmaðurinn frábæri í liði Real Madrid er ósáttur við að leikur liðsins gegn erkifjendunum í Barcelona skuli fara fram á laugardaginn en þar með fá Ronaldo og félagar styttri tíma en Börsungar til að undirbúa sig.

Barcelona spilaði við Ajax á heimavelli í fyrrakvöld en Real Madrid var á ferðinni á Anfield í gær þegar liðið lék á móti Liverpool.

„Ég skil hreinlega ekki af hverju við spilum á laugardaginn eftir að hafa spilað við Liverpool á miðvikudag. Leikurinn hefði átt að vera á sunnudaginn. Það segir sig sjálft að það er ekki sama að fá tvo daga til að jafna sig á milli leika og að fá þrjá daga,“ segir Ronaldo, sem skoraði fyrsta mark Real Madrid á móti Liverpool í gær og hefur þar með skorað 20 mörk á leiktíðinni.

„Þetta verður mjög erfiður leikur því Barcelona er að spila virkilega vel um þessar mundir,“ segir Ronaldo.

Barcelona trónir á toppi deildarinnar með 22 stig eftir átta leiki og hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni. Real Madrid er í þriðja sætinu með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert