Vilja fá nýjan leik við Schalke

Schalke-menn fögnuðu sigri í leiknum í fyrrakvöld þar sem sigurmarkið …
Schalke-menn fögnuðu sigri í leiknum í fyrrakvöld þar sem sigurmarkið kom úr ranglega dæmdri vítaspyrnu. AFP

Forráðamenn Sporting Lissabon hafa lagt inn formlega kvörtun til UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, vegna mistaka dómara í leik liðsins við Schalke í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld sem Schalke vann 4:3.

Portúgalarnir krefjast þess að leikurinn verði endurtekinn eða þá að liðin fái sitt stigið hvort líkt og um jafntefli hefði verið að ræða.

Ástæðan er aðallega sú að Schalke skyldi fá vítaspyrnu á lokamínútu leiksins, eftir að boltinn fór í höfuð Jonathan Silva, varnarmanns Sporting. Töldu dómararnir að Silva hefði handleikið knöttinn og því dæmdi Sergei Karasev vítaspyrnu.

Sporting-menn voru einnig manni færri frá 33. mínútu eftir að Mauricio var rekinn af velli og voru ósáttir við þá niðurstöðu.

Eftir leikinn er Sporting neðst í G-riðli með aðeins eitt stig eftir þrjá leiki, sex stigum á eftir Chelsea og fjórum stigum á eftir Schalke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert