Eyjólfur á endastöð?

Eyjólfur í baráttunni við Yohan Cabaye í vináttulandsleik gegn Frökkum.
Eyjólfur í baráttunni við Yohan Cabaye í vináttulandsleik gegn Frökkum. FRANCK FIFE

„Það gæti þess vegna farið svo að ég hætti. Ég er búinn að vera meiddur í tvö ár, meira og minna, og það gengur ekkert að finna út úr þessum meiðslum,“ sagði knattspyrnumaðurinn Eyjólfur Héðinsson við Morgunblaðið í gær.

Lið Eyjólfs, Midtjylland, er með gott forskot á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar en sjálfur hefur Breiðhyltingurinn ekki getað tekið neinn þátt í toppbaráttunni nú í haust. Þrálát nárameiðsli, sem fyrst voru greind sem mjaðmarmeiðsli, gætu bundið enda á feril Eyjólfs sem verður aðeins 29 ára í desember.

Eyjólfur á að baki 5 A-landsleiki og náði að leika einn leik undir stjórn Lars Lagerbäck í maí 2012, vináttulandsleik gegn Frökkum, áður en meiðslin tóku að gera vart við sig. Þá var hann leikmaður SönderjyskE en hann skipti yfir til Midtjylland í fyrrasumar, og hefur því glímt við meiðsli allan sinn tíma hjá félaginu. Glíman við meiðslin hefur tekið tvö ár og enginn virðist geta svarað því hvernig ráða megi bót á þeim.

Reyni áfram fram á næsta ár

„Ég er búinn að vera meiddur í náranum, með sömu einkenni allan þennan tíma. Ég er búinn að fara í tvær aðgerðir, hitta fullt af sérfræðingum; sjúkraþjálfurum og kírópraktorum, og það klóra sér bara allir í hausnum. Þess vegna er maður við það að gefa upp vonina en ég á rúmt ár eftir af samningnum við Midtjylland þannig að ég ætla að reyna áfram, að minnsta kosti fram á næsta ár. Ef ekkert lagast fljótlega þá held ég, bara vegna andlegrar heilsu, að þá segi maður þetta annars gott,“ sagði Eyjólfur, sem var á þrekhjólinu þegar Morgunblaðið heyrði í honum, hvað annað? Hann hefur fengið meðhöndlun hjá sérfræðingum í Danmörku, Svíþjóð og Íslandi, en það hefur engu skilað.

„Ég er ekki alveg búinn að gefast upp. Við erum alltaf að prófa nýjar aðferðir og við skulum sjá hverju sú nýjasta skilar,“ sagði Eyjólfur, en þessi langa törn án þess að geta notið þess að spila fótbolta hefur auðvitað ekki verið auðveld.

Nánar er rætt við Eyjólf í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert