Tap hjá lærisveinum Ólafs

Ólafur H. Kristjánsson á leikvangi Nordjælland.
Ólafur H. Kristjánsson á leikvangi Nordjælland. Ljósmynd/fcn.dk

Ólafur Helgi Kristjánsson og lærisveinar hans í Nordsjælland máttu bíta í það súra epli að tapa fyrir Midtjylland, 2:0, í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á útivelli í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Jótarnir tvö mörk í þeim síðari. 

Rúnar Alex Rúnarsson var varamarkvörður Nordsjælland í leiknum en Adam Örn Arnarson var ekki í leikmannahópnum. Eyjólfur Héðinsson lék heldur ekki með Midtjylland en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla eins og greint var m.a. frá í ítarlegu viðtali við hann í Morgunblaðinu í vikunni.

Midtjylland er efst í deildinni með 31 stig eftir 13 leiki, 10 stigum meira en Íslendingaliðið Randers er sem í öðru sæti. Nordsjælland er í fjórða sæti með 20 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert