Viðar Örn hefur ekki gefið upp vonina

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Ljósmynd/dagbladet.no

„Það er mögulegt að jafna markametið og skora 30 mörk en það verður erfitt að slá metið og skora 31 mark,“ segir Viðar Örn Kjartansson leikmaður Vålerenga við norska blaðið Aftenposten í dag.

Viðar Örn hefur skorað 25 mörk í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á leiktíðinni og á gullskóinn vísan þegar tvær umferðir eru eftir. Markametið er í eigu Odd Iversen sem skoraði 30 mörk í deildinni árið 1968. Selfyssingurinn þarf því að vera skotskónum og meira en það ætli honum að takast að jafna eða slá markametið. Viðar og félagar sækja Aalesund á morgun og taka síðan á móti Start um næstu helgi.

Viðar virtist á góðri leið með að slá markametið því hann var kominn með 24 mörk eftir 22 leiki en hefur aðeins náð að skora eitt mark í síðustu fimm leikjum sínum.

„Ég er ekki ánægður með sjálfan mig. Ég ætti að vera búinn að skora meira. Ég hef fengið færin en markaflæðið hefur ekki verið það sama upp á síðkastið. Kannski var ég of ánægður þegar ég var kominn í 24 mörk eftir 22 leiki. Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess að maður skori í hverjum leik. Það er ómögulegt. Það kemur tímabil þar sem þetta fer í stöngina og út í stað þess að það fari í stöngina og inn,“ segir Viðar Örn.

Viðar Örn hefur náð að skora tvær þrennur á tímabilinu og nái hann tveimur slíkum til viðbótar fellur markametið.

„Ég yrði ekkert undrandi ef mér tækist að slá metið. Ég hef náð að skora tvær þrennur á tímabilinu svo af hverju ekki núna?En ég yrði líka ánægður ef ég endaði í 25 mörkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert