Real Madrid fær 250 milljóna bætur

Luka Modric er á góðum launum.
Luka Modric er á góðum launum. AFP

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, mun greiða Evrópumeisturum Real Madrid 1,6 milljón evra, jafnvirði tæplega 250 milljóna króna, í bætur vegna meiðsla miðjumannsins Luka Modric.

Modric meiddist í leik með króatíska landsliðinu gegn Ítalíu á sunnudaginn og er talið að hann verði frá keppni í 3-4 mánuði. FIFA greiðir knattspyrnufélögum skaðabætur fari svo að leikmenn þeirra meiðist í landsleikjum og séu frá keppni í að minnsta kosti 28 daga.

Við útreikning bóta er tekið mið af launum leikmanna og samkvæmt spænska blaðinu AS mun FIFA í tilviki hins hálaunaða Modric þurfa að greiða fyrrnefnda upphæð.

Real fékk fyrir skömmu um það bil 2 milljónir evra vegna meiðsla Sami Khedira sem meiddist í leik með þýska landsliðinu gegn Ítalíu í nóvember í fyrra og var frá keppni í fimm mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert