Ragnar og félagar unnu CSKA og fóru í 2. sæti

Ragnar Sigurðsson hefur leikið alla mótsleiki Íslands síðan Lars Lagerbäck …
Ragnar Sigurðsson hefur leikið alla mótsleiki Íslands síðan Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við sem landsliðsþjálfarar haustið 2011. mbl.is/Golli

Ragnar Sigurðsson og félagar í Krasnodar unnu afar góðan sigur á CSKA Moskvu í dag, 2:1, í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þannig komst Krasnodar upp fyrir CSKA í 2. sæti deildarinnar.

Það var Brasilíumaðurinn Ari sem skoraði bæði mörk Krasnodar í dag snemma leiks en Roman Eremenko minnkaði muninn á 14. mínútu fyrir CSKA, sem hefur komið mörgum á óvart í Meistaradeildinni í vetur, og þar við sat.

Ragnar, sem skoraði mark Íslands gegn Tékkum síðastliðinn sunnudag, lék að vanda allan leikinn og nældi sér í gult spjald.

Krasnodar er nú með 27 stig eftir 14 leiki en Zenit er efst með 32 stig og á leik til góða sem nú stendur yfir. CSKA er með 25 stig í 3. sætinu.

Það gengur ekki eins vel hjá Sölva Geir Ottesen og félögum í Ural en þeir töpuðu 3:1 í dag fyrir Rubin Kazan og eru í fjórða neðsta sæti með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert