Stjarnan á bekkinn fyrir að sofa yfir sig

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland. Ljósmynd/fcn.dk

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, var ekki ánægður með stjörnuleikmann liðsins, danska landsliðsmanninn Uffe Bech, eftir að hann mætti of seint á svæðið fyrir leikinn við OB í dag.

Bech mun hafa sofið yfir sig og afsakaði sig með því að sími sinn hefði verið stilltur þannig að ekki heyrðist í vekjaraklukkunni. Ólafur ákvað hins vegar að setja leikmanninn á varamannabekkinn en Bech kom inn á í sinni hálfleik.

„Ég var einhverra hluta vegna með símann minn hljóðlausan. Sem betur fer vaknaði ég skömmu síðar og kom ekkert sérstaklega seint,“ sagði Bech við EkstraBladet. Fannst honum refsingin ströng?

„Það veit ég ekki. Ég kom ekkert sérstaklega seint en það skiptir heldur ekki máli. Það sem skiptir máli er að ég kom of seint og þá þarf ég að taka afleiðingunum,“ sagði Bech.

Nordsjælland tapaði leiknum 1:0 eins og lesa má um HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert