Ég ákvað að taka sénsinn

Helgi Kolviðsson.
Helgi Kolviðsson. Ljósmynd/www.scwn.at

„Þetta er áhugavert verkefni og ég ákvað að slá til og taka tilboðinu, frekar en að sitja heima og bíða eftir einhverju öðru,“ sagði Helgi Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, við mbl.is en eins og fram hefur komið var hann í gær ráðinn þjálfari austurríska úrvalsdeildarliðsins Wiener Neustadt.

„Það var smá aðdragandi að þessu því forráðamenn félagsins hringdu í mig fyrir hálfri þriðju viku. Þá voru þeir að  velta því fyrir sér hvort ég hefði áhuga á að koma til þeirra ef þeir myndu skipta um þjálfara. Ég svaraði því til að það væri allt í lagi að ræða hlutina. Síðan gerðist þetta tiltölulega hratt. Ég ákvað að taka tilboði þeirra, ferðaðist hingað til Wiener Neustadt með lest í nótt og stjórnaði fyrstu æfingunni í dag,“ sagði Helgi.

Hann hætti störfum með Austria Lustenau í B-deildinni austurrísku í október, í kjölfarið á slæmu gengi liðsins framan af tímabilinu, en þar var hann þjálfari í þrjú og hálft ár.

„Ég var á launum hjá Austria fram í júní á næsta ári og hefði því hæglega getað beðið rólegur. Ég ætlaði reyndar að taka því rólega eftir að ég hætti þar, en þetta er búinn að vera ansi annasamur tími. Það hefur verið dálítið um þreifingar og fyrirspurnir og ég hef heyrt af áhuga félaga í Þýskalandi, Sviss og Austurríki síðustu vikurnar. En þegar þetta tilboð kom frá Wiener Neustadt ákvað ég að taka sénsinn og taka því, en vera ekki að bíða eftir einhverju öðru upp á von eða óvon. Mér fannst þetta verkefni það spennandi að það væri ekki hægt að sitja heima og gera ekki neitt,“ sagði Helgi, sem er ráðinn út þetta tímabil. Haldi liðið sæti sínu í deildinni framlengist samningurinn sjálfkrafa um eitt ár.

Wiener Neustadt er neðst í úrvalsdeildinni, þremur stigum á eftir næsta liði, Admira Wacker, en Helgi sá verðandi lærisveina sína vinna óvæntan sigur á Wolfsberger, næstefsta liði deildarinnar, síðasta laugardag, 2:0.

„Ég vildi sjá liðið í leik áður en ég tæki endanlega ákvörðun, og mér leist vel á það sem ég sá í leiknum. Wiener Neustadt er þekkt  fyrir að byggja á ungum og efnilegum Austurríkismönnum, það er nær eingöngu með slíka leikmenn í hópnum, og það er spennandi verkefni að vinna með þá næstu mánuðina. Ég mun ekki koma inn með einhverjum látum, liðið spilaði vel í síðasta leik og það verður byggt á því áfram. Starfsliðið í kringum liðið er óbreytt að öðru leyti en því að ég kem inn sem nýr aðalþjálfari. Það eru bara þrjár vikur og þrír leikir eftir fram að vetrarfríinu og að þeim tíma liðnum verður frekar hægt að fara út í einhverjar breytingar,“ sagði Helgi sem stýrir Wiener Neustadt fyrst gegn Rapid Vín á útivelli á laugardaginn kemur.

Hann hefur til þessa verið búsettur vestast í Austurríki en Wiener Neustadt er í austurhluta landsins. „Ég verð einn hérna í bili, það er ekki hægt að rífa fjölskylduna upp og flytja á þessum tíma. Við sjáum bara til hvernig þetta þróast, og hvort ég verð hérna við störf til vorsins eða lengur,“ sagði Helgi Kolviðsson við mbl.is.

Helgi ráðinn þjálfari Wiener Neustadt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert