Helgi ráðinn þjálfari Wiener Neustadt

Helgi Kolviðsson
Helgi Kolviðsson Ljósmynd/Maurice Shourot

Helgi Kolviðsson hefur verið ráðinn þjálfari austurríska knattspyrnuliðsins Wiener Neustadt en hann tók þar við störfum í kvöld og er ráðinn út þetta keppnistímabil. Haldi liðið sæti sínu í úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili framlengist samningurinn sjálfkrafa um eitt ár.

Wiener Neustadt er neðst í deildinni, þremur stigum á eftir næsta liði þegar 16 umferðir af 36 hafa verið leiknar, en aðeins neðsta liðið af tíu fellur úr deildinni. 

Helgi hefur verið í Austurríki um árabil en honum var sagt upp störfum hjá B-deildarliðinu Austria Lustenau í október, eftir að hafa stýrt því í hálft fjórða ár. Hann þjálfaði áður lið Pfullendorf í Þýskalandi og lék áður með báðum þessum félögum.

Helgi, sem er 43 ára gamall, lék á sínum tíma 30 landsleiki fyrir Íslands hönd og á ferli sínum lék hann með ÍK og HK í Kópavogi, og síðan með þýsku liðunum Mainz og Ulm og austurríska liðinu Kärnten, auk þeirra sem áður var getið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert