Arteta verður frá um þó nokkra hríð

Arséne Wenger á hliðarlínunni í kvöld.
Arséne Wenger á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Arséne Wenger knattspyrnustjóri Arsenal var ánægður einbeitingu sinna manna í 2:0 sigrinum á Dortmund í kvöld en í viðtali við Sky Sports sagðist hann þó óttast að fyrirliði sinn, Mikael Arteta verði frá um þó nokkra hríð.

„Þetta lítur ekki vel út en um er að ræða kálfameiðsli. Það er erfitt að kyngja þessu þar sem við erum að fara inn í stífa leikjadagskrá og þurfum að hafa sem flesta til taks. En ég held að Arteta verði frá um þó nokkra hríð,“ sagði Wenger eftir leikinn í kvöld.

Wenger var ánægður með landa sinn Yaya Sanogo í kvöld sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Arsenal þegar hann kom skyttunum yfir.

„Ég var ánægður með það sem hann gerði í kvöld. Við ákváðum að senda langa bolta á hann og hann hélt boltanum vel.  En það sem hann gerði í fyrra markinu, spilið hans við Cazorla, það var virkilega fagmannlegt,“ sagði Wenger.

„Það sem gladdi mig mest var einbeitingin. Við vörðumst vel saman. Við spiluðu mjög svipaðan leik á laugardag [gegn Manchester United].  Við urðum að sýna mikla einbeitingu og máttum ekki gefa nein færi á okkur. Við vorum kannski betri varnarlega í kvöld,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert