Rúrik missti af úrslitaleik

Rúrik Gíslason í leik með FC Köbenhavn í Evrópudeildinni.
Rúrik Gíslason í leik með FC Köbenhavn í Evrópudeildinni. AFP

Rúrik Gíslason og samherjar í danska liðinu FC Köbenhavn komast ekki í 32ja liða úrslit Evrópudeildarinnar í vetur en það er ljóst eftir dramatískan ósigur gegn HJK Helsinki, 2:1, í Finnlandi í kvöld.

Per Nilsson jafnaði metin fyrir FCK um leið og uppbótartími leiksins var að hefjast og virtist með því hafa tryggt danska liðinu hreinan úrslitaleik gegn Torino í lokaumferð riðilsins. Gideon Baah hafði komið Finnunum yfir eftir hálftíma leik. En Macoumba Kandji skoraði sigurmark HJK með nánast síðustu spyrnu leiksins.

Rúrik lék allan leikinn með FCK sem situr eftir í neðsta sæti riðilsins.

Torino og Club Brugge gerðu markalaust jafntefli á Ítalíu og þar með er Club Brugge komið með 9 stig, Torino 8, HJK 6 og FC Köbenhavn 4 stig.

Ekkert liðanna er komið áfram en Club Brugge þarf að tapa 1:4 fyrir HJK á heimavelli í lokaumferðinni til að geta misst bæði Finnana og Torino uppfyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert