„Pabbinn“ framlengdi við IFK Gautaborg

Hjálmar Jónsson.
Hjálmar Jónsson. Ljósmynd/ifkgoteborg.se

Knattspyrnumaðurinn Hjálmar Jónsson hefur skrifað undir nýjan samning við sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg.

Hjálmar hefur spilað með Gautaborgarliðinu frá árinu 2002 og er sá leikmaður úr liðinu í dag sem hefur verið lengst hjá félaginu samfleytt og spilað flesta leiki en Hjálmar hefur fengið viðurnefnið pabbinn í Gautaborgarliðinu.

„Hjálmar með sitt viðhorf er afar mikilvægur fyrir okkar lið,“ segir Mats Gren íþróttastjóri IFK Gautaborg á vef félagsins í dag.

Hjálmar, sem er uppalinn hjá Hetti á Egilsstöðum, hefur spilað alls 382 leiki fyrir IFK Gautarborg en hann kom til félagsins frá Keflavík. Leikirnir í sænsku úrvalsdeildinni eru 228 talsins og í þeim hefur hann skorað 6 mörk.

Hjálmar er 34 ára gamall og á að baki 21 leik með íslenska A-landsliðinu en hann spilaði síðast með því gegn Rússum á Marbella á Spáni í febrúar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert