Xavi hefði getað mætt uppeldisfélaginu

Xavi er feginn að hafa haldið kyrru fyrir í sumar.
Xavi er feginn að hafa haldið kyrru fyrir í sumar. AFP

Xavi, spænski miðjumaður Barcelona og fyrirliði liðsins, er feginn að hafa haldið kyrru fyrir í sumar. Hann segir að annars hefði hann að öllum líkindum mætt uppeldisfélagi sínu í Meistaradeildinni.

Xavi segist næstum hafa verið búinn að yfirgefa félagið og ganga til liðs við New York City í bandarísku MLS-deildinni líkt og Frank Lampard gerði. Liðið er í eigu sömu aðila og Manchester City og Lampard fór sem kunnugt er á láni til þeirra ljósbláu, nokkuð sem Xavi trúir að hefði einnig orðið hans hlutskipti.

„Ég var næstum í vandræðum því ég hefði getað mætt Barcelona. Ég sé núna að það hefði verið slæm ákvörðun að fara, ég er ánægður að vera hér áfram,“ sagði Xavi, en City og Barcelona mætast einmitt í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Xavi segist einnig ánægður með komu Luis Suárez til Barcelona í sumar. „Hann er fæddur markaskorari. Hann minnir mig á drápseðlið sem einkenndi Samuel Eto‘o; þetta slæma skap, persónuleikinn og áræðnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert