Verona styrkti stöðuna

Luca Toni framherji Hellas Verona með boltann í leiknum gegn …
Luca Toni framherji Hellas Verona með boltann í leiknum gegn Atalanta í dag. EPA

Emil Hallfreðsson og félagar í Hellas Verona styrktu stöðu sína í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag þegar þeir sigruðu Atalanta á heimavelli, 1:0. Argentínumaðurinn Javier Saviola skoraði sigurmarkið á 53. mínútu.

Emil lék allan leikinn á miðjunni hjá Verona og fékk gula spjaldið undir lok leiksins. Verona er í 14. sæti af 20 liðum með 24 stig úr 20 leikjum en komst með sigrinum í sex stiga fjarlægð frá fallsæti deildarinnar.

Cesena vann Parma 2:1 á útivelli í uppgjöri botnliðanna, sem  virðast bæði á hraðleið niður í B-deildina. Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varamannabekk Cesena sem vann aðeins annan sigur sinn á tímabilinu og er með 12 stig í næstneðsta sæti. Parma er með 9 stig á botninum.

Juventus vann ChievoVerona, 2:0, með mörkum frá Paul Pogba og Stephan Lichtsteiner og er átta stigum á undan Roma sem sækir Fiorentina heim í kvöld.

Ófarir Mílanóliðanna halda áfram. Inter tapaði 0:1 fyrir Torino á heimavelli og er í 9. sæti og AC Milan tapaði 3:1 fyrir Lazio í Róm og er í 10. sæti. Torino vann þarna sinn fyrsta sigur í Mílanóborg í 27 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert