PSV býður Hirti nýjan samning

Hjörtur Hermannsson í búningi 21-árs landsliðsins þar sem hann hefur …
Hjörtur Hermannsson í búningi 21-árs landsliðsins þar sem hann hefur átt fast sæti. mbl.is/Kristinn

Hollenska stórliðið PSV Eindhoven hefur boðið varnarmanninum Hirti Hermannssyni nýjan samning til þriggja ára en hann hefur verið í röðum félagsins í tæp þrjú ár.

Hjörtur, sem er 19 ára gamall, kom til PSV frá Fylki sumarið 2012 en hann hafði þá þegar spilað 12 leiki með Árbæjarliðinu í úrvalsdeildinni og skorað eitt mark.

Síðasta vetur og það sem af er þessu tímabili hefur Hjörtur spilað með varaliði PSV, Jong PSV, en það leikur í næstefstu deild í Hollandi. Meiðsli sem hann varð fyrir síðasta vor urðu til þess að Hjörtur missti af undirbúningstímabilinu á liðnu sumri.

„Þetta tilboð og lengd þess gefur augljóslega til kynna að PSV lítur á Hjört sem framtíðarmann í sínu liði, enda hefur hann spilað mjög vel með varaliðinu og undanfarið loks fengið að spila sína stöðu, hægri miðvarðarstöðuna, eftir að hafa ýmist verið vinstra megin eða bakvörður í leikjum liðsins," sagði Ólafur Garðarsson umboðsmaður við mbl.is.

Hjörtur hefur verið fastamaður í 21-árs landsliði Íslands í knattspyrnu þrátt fyrir ungan aldur, hefur þegar leikið 9 leiki með því og skoraði í leik gegn Kasakstan á útivelli í undankeppni EM á síðasta ári. Þá á hann að baki 41 landsleik með yngri landsliðunum þar sem hann var yfirleitt fyrirliði, m.a. U17 ára liðsins sem varð Norðurlandameistari árið 2011 og lék í 8-liða úrslitum Evrópukeppninnar árið eftir.

Aðallið PSV Eindhoven er með sex stiga stiga forskot á meistara Ajax á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar og á því góða möguleika á að hreppa meistaratitilinn í fyrsta sinn í sjö ár en PSV hefur orðið meistari í 21 skipti og þar af sjö sinnum frá 2000 til 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert