Messi og Enrique rifust á æfingu

Luis Enrique, þjálfari Barcelona.
Luis Enrique, þjálfari Barcelona. EPA

Jeremy Mathieu, leikmaður katalónska knattspyrnuliðsins Barcelona, segir að Lionel Messi og þjálfarinn Luis Enrique hafi rifist á æfingu fyrr í þessum mánuði en mikið var gert úr ósætti þeirra á milli í spænskum fjölmiðlum.

Messi hóf næsta leik á varamannabekknum og var ekki á opinni æfingu liðsins daginn eftir, þar sem sagt var að hann væri veikur. Í framhaldinu urðu til fréttir af meintu ósætti og fullyrt að Messi væri á  förum frá Barcelona. M.a. var því haldið fram að hann hefði sett stjórn félagsins þá afarkosti að annar hvor þeirra yrði að víkja.

Mathieu sagði í viðtali við útvarpsstöðina RMC að um mjög léttvægt atvik hefði verið að ræða. „Við vorum að koma aftur úr jólafríinu og þetta var á æfingu 2. janúar. Messi snöggreiddist þegar brotið var á honum en ekki dæmt á það. Þeir voru æstir og sendu hvor öðrum tóninn. Eftir æfinguna kom þjálfarinn inní búningsklefann, þeir ræddu málin og þar með var þessu lokið. Svona lagað gerist hjá öllum liðum, en vegna þess að þetta er Barcelona, þá var þetta gert að stórmáli. Það er vandamálið," sagði Mathieu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert