Sverrir Ingi á leið til Lokeren

Sverrir Ingi getur glaðst því það lítur út fyrir að …
Sverrir Ingi getur glaðst því það lítur út fyrir að hann fari til Lokeren eins og hann vildi. mbl.is/Golli

Viking hefur ákveðið að taka tilboði Lokeren í miðvörðinn Sverri Inga Ingason. Hann mun gangast undir læknisskoðun um helgina og ætti að geta skrifað undir samning við belgíska félagið í kjölfarið.

Þetta fullyrðir norska blaðið Aftenposten í dag. Í gær greindu norskir miðlar frá því að fyrsta tilboði Lokeren hefði verið hafnað en Viking hafði áður hafnað tveimur tilboðum frá Nordsjælland í Danmörku. Núna er samkomulag í höfn og mun Lokeren greiða yfir 6 milljónir norskra króna fyrir Sverri, jafnvirði rúmlega 100 milljóna íslenskra króna. Þetta gerir Sverri að 8. dýrasta leikmanninum í sögu Viking.

Sverrir á eftir að semja persónulega við Lokeren en eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag hefur hann mikinn áhuga á að ganga í raðir félagsins og því virðist ekkert standa í vegi fyrir að það gangi eftir.

Viking keypti Sverri fyrir 1 milljón norskra króna frá Breiðabliki fyrir rúmu ári síðan, og hann hefur því sexfaldast í verði eftir sína fyrstu leiktíði í atvinnumennsku. Breiðablik fær ákveðið hlutfall af kaupverðinu nú í sinn hlut.

Lokeren er í 8. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar með 33 stig, í harðri baráttu um að komast í sex liða úrslitakeppnina. Félagið seldi nýverið annan miðvörð, Alexander Scholz, til Standard Liége en Scholz er Íslendingum að góðu kunnur eftir að hafa leikið með Stjörnunni hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert