Eto'o fór heim í fússi

Samuel Eto'o í leiknum gegn Torino í gær.
Samuel Eto'o í leiknum gegn Torino í gær. AFP

Kamerúnski knattspyrnumaðurinn Samuel Eto'o fer af stað með látum hjá Sampdoria á Ítalíu, samkvæmt ítölskum fjölmiðlum í dag.

Eto'o kom til Sampdoria frá Everton í síðustu viku og samdi við félagið til ársins 2018. Ítalskir fjölmiðlar segja að hann hafi verið mjög ósáttur í dag þegar hann komst að því að þjálfarinn Sinisa Mihajlovic hafði ákveðið að vera með tvöfalda æfingu hjá liðinu, sem sagt helmingi lengri en vanalega.

Eto'o hafi yfirgefið æfingasvæðið í snarhasti og keyrt beinustu leið heim en hann er búsettur í Mílanó. Sagt er að forráðamenn Sampdoria hafi reynt að elta hann en án árangurs.

Sampdoria steinlá fyrir Torino, 5:1, í ítölsku A-deildinni í gær og Eto'o spilaði þar síðustu 20 mínúturnar. Hann kom inná þegar staðan var orðin 4:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert