Danskir landsliðsmenn í verkfall?

Christian Eriksen fær um 16 milljónir króna á ári fyrir …
Christian Eriksen fær um 16 milljónir króna á ári fyrir þátttöku í landsleikjum. Sambandið vill skera þetta niður um 17 prósent. AFP

Danskir landsliðsmenn ásamt samtökum knattspyrnumanna í landinu eiga þessa dagana í deilum við danska knattspyrnusambandið sem hefur tilkynnt að það muni lækka launagreiðslur til leikmanna fyrir landsleiki um 17 prósent.

Sambandið á í fjárhagserfiðleikum og vill því grípa til þessara aðgerða gagnvart leikmönnum A-landsliða karla og kvenna og 21-árs landsliðs karla. Allir landsliðsmenn hafa verið beðnir um að tilkynna sambandinu í síðasta lagi næsta mánudag, 2. mars, hvort þeir gefi kost á sér í danska landsliðið á þessum breyttu forsendum, næsta hálfa árið.

Erfiðleikar sambandsins eru skýrðir með dræmari aðsókn að landsleikjum og fækkandi styrktaraðilum.

Í gær hótaði aðal styrktaraðili kvennalandsliðsins, 3F, að draga sig út úr samstarfi við knattspyrnusambandið vegna deilunnar.

Danir eiga fyrir höndum vináttulandsleiki gegn Bandaríkjamönnum og Frökkum í lok mars og algjör óvissa ríkir um hvernig lið þeirra verði skipað í þessum leikjum.

Landsliðsmennirnir hafa neitað að tjá sig við fjölmiðla um málið og sama segir þjálfari karlalandsliðsins, Morten Olsen.

„Það hefur ekki verið ástæða til að gefa út opinbera yfirlýsingu. Við erum sammála um að ræða þessi mál ekki við fjölmiðla," sagði Daniel Agger, miðvörður Bröndby og karlalandsliðsins við TV2.

Dönsku leikmannasamtökin hafa lýst yfir óánægju með að knattspyrnusambandið skyldi snúa sér beint til leikmannanna en ekki til samtakanna, og hefur jafnframt tilkynnt að mikil samstaða sé á meðal leikmanna og þeir muni ekki taka þátt í einstaklingsmiðuðum samningum sem sambandið hafi lagt til.

Allir landsliðsmenn Dana sameinuðust um að mæta ekki á verðlaunahóf knattspyrnusambandsins sem haldið var í kvöld.

TV2 upplýsir jafnframt að leikmaður á borð við Christian Eriksen, sem spili alla landsleiki Dana, hafi fengið um 800 þúsund danskar krónur, jafnvirði um 16 milljóna íslenskra króna, á ári frá sambandinu. Bónusgreiðslur fyrir hvern sigurleik nemi á bilinu 230 þúsund til 650 þúsund íslenskum krónum á mann, og leikmenn fái um 120 til 180 þúsund í greiðslu fyrir að vera valdir í hópinn.

TV2 hefur leitað sér upplýsinga um hverjar samsvarandi greiðslur séu til norskra landsliðsmanna. Svörin þaðan eru þau að leikmenn fái að hámarki um 5 milljónir króna á ári og bónusgreiðslur séu ekki til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert