Kínverjar skákuðu stóru deildunum

Viðar Örn Kjartansson skrifar undir hjá Jiangsu Sainty.
Viðar Örn Kjartansson skrifar undir hjá Jiangsu Sainty. Ljósmynd/@saintyfc

Liðin í kínversku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eyddu því sem samsvarar tæplega 103 milljónum punda í leikmenn í félagaskiptaglugganum sem lokað var þar í landi á föstudagskvöldið. 

Þar með settu þau hærri upphæðir í leikmenn í þessum glugga en liðin í þremur af stærstu deildum Evrópu. Ítalir eyddu um 101 milljón punda, Þjóðverjar um 75 milljónum og Spánverjar um 67 milljónum punda í leikmenn í janúar.

Aðeins liðin í ensku úrvalsdeildinni eyddu meiru í leikmenn á þessum tíma eða samtals um 179 milljónum punda.

Samt voru félagaskiptin í Kína helmingi færri en á Englandi og Ítalíu og sex sinnum færri en í Þýskalandi. Í Kína er kvóti á erlenda leikmenn á þann veg að fimm slíkir mega vera í hverju liðið. Fjórir mega koma frá löndum utan Asíu en sá fimmti verður þá að koma frá Asíulandi. 

Meðal leikmannanna sem voru keyptir voru Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen sem Jiangsu Sainty keypti af Vålerenga í Noregi og Ural í Rússlandi.

Keppni í kínversku úrvalsdeildinni hefst næsta laugardag, 7. mars, en þá leikur Jiangsu Sainty við Shanghai SIPG á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert