Bíddu, ertu ekki frá Íslandi?

Dagný Brynjarsdóttir skallar boltann í átt að marki Wolfsburg í …
Dagný Brynjarsdóttir skallar boltann í átt að marki Wolfsburg í stórleik liðanna á dögunum. Ljósmynd/fcb-frauenfussball.de

Dagný Brynjarsdóttir hefur fengið draumabyrjun hjá Bayern München eftir að hún samdi við þýska knattspyrnufélagið í janúar. Hún hefur spilað alla þrjá leikina síðan þá frá upphafi til enda, þar á meðal í jafntefli við Evrópumeistara Wolfsburg sem eru í efsta sæti þýsku deildarinnar. Bayern er í 2. sæti eftir uppgang síðustu ár.

„Það er auðvitað mjög gaman að koma ný og spila 90 mínútur í öllum leikjum, en ég er enn að venjast öllu. Liðið er með öðruvísi uppstillingu og leikstíl en ég er vön, ég er ennþá að koma mér inn í hlutina og veit að ég á alveg fullt inni ennþá.

Við erum til dæmis með fimm manna varnarlínu, eða þriggja manna með bakverðina sem kantmenn, og fótboltinn gengur mikið út á að fara með boltann beint í gegnum miðjuna. Liðið er mjög beinskeytt og „aggressívt“ og þetta er svolítið öðruvísi en hjá Florida State þar sem mikið var lagt upp úr að dreifa spilinu og nýta kantana,“ sagði Dagný, nýlent á Algarve í Portúgal þar sem hún leikur með íslenska landsliðinu í hinum árlega Algarve-bikar.

Dagný saknar Flórída-sólarinnar mikið og þykir kalt í Þýskalandi.

„Maður fær oft skot á sig og er spurður: „Bíddu, ertu ekki frá Íslandi? Þá ættirðu nú að vera vön svona kulda,“ en ég held að fólk átti sig ekki á því að á Íslandi æfa flestir innanhúss yfir veturinn. Svo er ég búin að vera á Flórída síðustu þrjú ár þannig að þetta eru fyrstu mánuðirnir í langan tíma þar sem ég æfi í frosti. Þjóðverjarnir skilja ekkert í því hvað maður þolir kuldann illa,“ sagði Dagný létt.

Sjá nánar viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert