Fékk háa sekt fyrir að móðga lögreglumenn

Gerard Piqué.
Gerard Piqué. AFP

Dómari á Spáni sektaði í dag spænska knattspyrnumanninn Gerard Piqué leikmann Barcelona en miðvörðurinn missti stjórn á skapi sínu og lenti í rimmu við tvo umferðarlögregluþjóna.

Atvikið átti sér stað í október þegar Piqué beið í farþegasæti bifreiðar bróður hans sem lagt var ólöglega. Piqué reyndi að sannfæra lögreglumennina um að bíllinn hefði aðeins verið í stæðinu í fimm mínútur en lögreglumennirnir tóku ekki mark á afsökun knattspyrnumannsins. Þegar þeir afhentu Piqué stöðumælasekt brást hann ókvæða við og kastaði miðanum í lögreglumennina.

Mælt var með því að sekt Piqué yrði 900 evrur en dómari ákvað að í ljósi þess að Piqué er hátt launaður skyldi hann greiða 10.500 evrur í sekt en sú upphæð nemur 1,6 milljónum króna.

Piqué, sem er eiginmaður söngkonunnar heimsfrægu Shakira, hefur á ferli sínum unnið Meistaradeildina með Manchester United og Barcelona og þá varð hann heimsmeistari með Spánverjum árið 2010 og Evrópumeistari 2012.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert