Arnór var bikarbjargvætturinn

Arnór Ingvi Traustason skoraði dýrmætt mark í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason skoraði dýrmætt mark í kvöld. mbl.is/Kristinn

Arnór Ingvi Traustason tryggði í kvöld Norrköping sæti í átta liða úrslitum sænsku  bikarkeppninnar eftir mikla dramatík en hann skoraði þá eina mark liðsins í 3:1 ósigri gegn Djurgården í Stokkhólmi.

Það þykir kannski skrýtið að tapa bikarleik en komast samt áfram en sænska bikarkeppnin er þannig uppbyggð að í 32ja liða úrslitum er liðunum skipt í átta riðla, fjögur lið í hverjum riðli, og sigurliðið í hverjum þeirra kemst í átta liða úrslitin.

Fyrir leiki kvöldsins var Norrköping með þægilega stöðu, sex stig eftir tvo leiki, og virtist með sæti í átta liða úrslitunum gulltryggt. C-deildarliðið Norrby var með 3 stig, en Djurgården og Ängelholm voru með 1 stig og áttu enga möguleika á að fara áfram.

Þegar tíu mínútur voru eftir af leikjunum var Djurgården komið í 3:0 gegn Norrköping en Norrby var að bursta B-deildarlið Ängelholm, 4:0. Eitt mark enn frá Norrby hefði í þeirri stöðu verið banabiti Arnórs og félaga.

En á 82. mínútu skoraði Keflvíkingurinn og minnkaði muninn í 3:1. Það var eins gott, Norrby bætti við fimmta markinu á lokamínútunum en hefði þurft að skora það sjötta til að slá Norrköping út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert