Gautaborg með Birki í sigtinu

Birkir Bjarnason á fullri ferð gegn Hollendingum.
Birkir Bjarnason á fullri ferð gegn Hollendingum. mbl.is/Ómar

Sænska knattspyrnufélagið IFK Gautaborg er með landsliðsmanninn Birki Bjarnason hjá Pescara á Ítalíu í sigtinu en Mats Gren, íþróttastjóri félagsins, staðfestir það við Fotbollskanalen í dag.

„Við höfum farið og kíkt á hann en hann er ekki laus fyrr en í sumar. Við höfum skoðað fleiri leikmenn. Birkir er fastamaður hjá sínu liði og er laus í sumar þegar samningur hans rennur út. Það yrði of dýrt að borga fyrir miðjumann, bara fyrir nokkra mánuði," segir Gren við netmiðilinn.

Birkir hefur átt góðu gengi að fagna með Pescara í vetur og verið drjúgur í markaskorun undanfarnar vikur en lið hans er í baráttu um sæti í A-deildinni.

Expressen fjallar líka um mögulega komu Birkis til Gautaborgar og hefur eftir Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara Íslands að hann myndi nýtast liðunu vel.

„Góður fótboltamaður og góð manneskja. Ég hef bara jákvæða hluti um hann að segja. Þó hann sé ekki eldri er hann með fjölda landsleikja og talsverða reynslu. Góður karakter, rétt hugarfar - kallið það hvað sem þið viljið. Fjölhæfur leikmaður sem leggur hart að sér og getur bæði sótt og varist," segir Lagerbäck um Birki.

„Birkir hefur gert það virkilega gott og þessvegna spilar hann alla leiki. Hann er góður sem einstaklingur en fyrst og fremst góður í liðsheild. Hann bregst ekki þegar mest á reynir og vex með vanda hverjum. Virkilega nytsamlegur leikmaður," bætir Lagerbäck við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert