Með Kasakstan í sigtinu

Kolbeinn Sigþórsson í leik með Ajax.
Kolbeinn Sigþórsson í leik með Ajax. Ljósmynd/ajax.nl

Það hefur lítið farið fyrir Kolbeini Sigþórssyni, aðalframherja íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem leikur með Hollandsmeisturum Ajax.

Kolbeinn hefur aðeins komið við sögu í einum hálfleik með liði Ajax á árinu en hann lék síðari hálfleikinn í markalausu jafntefli á móti Feyenoord í lok janúar en hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðan þá.

Í lok mánaðarins verður þráðurinn tekinn upp í undankeppni Evrópumótsins og sækja Íslendingar lið Kasakstan heim hinn 28. þessa mánaðar. Eðlilega hafa menn áhyggjur af Kolbeini, hvort hann verði búinn að ná sér af meiðslunum og geti verið með í þeim mikilvæga leik en Kolbeinn er íslenska landsliðinu ákaflega mikilvægur og einn af lykilmönnum liðsins.

„Ég er búinn að glíma við meiðsli frá því í byrjun desember. Fyrst var það ökklinn og síðan hef ég verið í veseni með hnéð frá því ég fékk högg á það í æfingaferð í Katar. Það kom í ljós nokkrum vikum síðan að ég var með slit í sininni og það hefur tekið sinn tíma fyrir hana að gróa. Þess vegna hef ég verið svona lengi frá en ég er að verða góður í hnénu og vonandi næ ég leikjunum með landsliðinu,“ sagði Kolbeinn við Morgunblaðið en eftir leikinn við Kasakstan mæta Íslendingar liði Eista í vináttuleik hinn 31. mars. „Leikurinn á móti Kasakstan er gríðarlega mikilvægur. Þetta verður erfiður leikur á gervigrasi og við munum þurfa að hafa mikið fyrir því að ná þremur stigum þar,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn hefur spilað 15 af 25 leikjum Ajax í deildinni á tímabilinu og hefur í þeim skorað fimm mörk. Áður en hann meiddist var Pólverjinn Arkadiusz Milik búinn að taka framherjastöðuna af Kolbeini en Milik er markahæsti leikmaður Ajax á tímabilinu, hefur skorað níu mörk í 18 leikjum.

„Ef þessi vika gengur vel þá er spurning hvort ég fæ að spila með varaliðinu í næstu viku. Ef það gengur eftir og allt gengur að óskum verð ég bara orðinn klár í slaginn. Ég held að ég verði tilbúinn til að spila á móti Kasakstan. Auðvitað skortir mig leikform þar sem ég hef ekki spilað alvöruleik síðan í nóvember en það verður vonandi fljótt að koma til baka þegar ég byrja að spila,“ sagði Kolbeinn við Morgunblaðið.

Sjá allt viðtalið við Kolbeinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert