Hvers vegna er Kasakstan í Evrópukeppni?

Astana er glæsileg borg, enda að mestu byggð á síðustu …
Astana er glæsileg borg, enda að mestu byggð á síðustu 20 árum.

Það furða sig kannski margir á því að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu skuli vera komið langt austur í miðja Asíu til að spila leik í undankeppni Evrópumótsins.

Þar er íslenska liðið á nýjum slóðum en Íslands og Kasakstan hafa aldrei mæst í A-landsleik í knattspyrnu. Á síðustu árum hafa þó 21-árs landslið þjóðanna mæst og bæði FH og Breiðablik hafa mætt Aktobe, einu af öflugustu liðum landsins, í Evrópukeppni.

Kasakstan er að mestu leyti Asíuþjóð en um 10 prósent af landinu er innan Evrópu. Landið fékk sjálfstæði árið 1991 en hafði fram að því verið eitt af lýðveldum Sovétríkjanna. Kasakar voru reyndar síðastir af gömlu lýðveldunum til að lýsa yfir sjálfstæði.

Kasakstan er geysilega víðlent land, það níunda stærsta í heimi og það stærsta sem liggur hvergi að sjó. Langstærsti hluti landamæra landsins liggur að Rússlandi í vestri og norðri en Kína er hinsvegar næsti nágranni í austri. Í suðri á Kasakstan landamæri að Túrkmenistan, Úsbekistan og Kirgistan, þremur öðrum gömlum sovétlýðveldum.

Til að gefa mynd af stærð landsins má nefna að þó Spánn, Frakkland, Þýskaland, Pólland, Ítalía, Tékkland, Austurríki og Sviss væru öll sameinuð í eitt ríki, næði það ekki stærð Kasakstans að flatarmáli.

Sex manns á hvern ferkílómetra

En í allri þessari víðáttu búa þó "aðeins" 18 milljónir manna, þar af rúm 800 þúsund í höfuðborginni Astana og um 1.500 þúsund í fyrrverandi höfuðborginni Almaty. Landið er í hópi þeirra strjálbýlustu í heimi því aðeins búa þar rúmlega 6 manns að meðaltali á hverjum ferkílómetra. Reyndar helmingi fleiri samt en hér á Íslandi þar sem íbúar eru að meðaltali rúmlega 3 á hverjum ferkílómetra. Svo tekinn sé meiri samanburður þá búa 226 manns á hverjum ferkílómetra í Þýskalandi.

Ferðalögin innanlands eru því löng og ströng, eins og lesa má í viðtali við Hannes Þ. Sigurðsson í Morgunblaðinu í dag en hann er eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem hefur spilað með félagsliði í Kasakstan. Hann lék með Atyrau í Evrópuhluta landsins árið 2012.

Knattspyrnan í Kasakstan var aldrei áberandi á meðan landið var innan Sovétríkjanna. Kairat frá Almaty var eina félagslið Kasakstan sem komst í efstu deild sovéska fótboltans en Kairat lék þar í 24 ár samtals og náði þar best sjöunda sæti.

Völdu Asíu frekar en Evrópu í atkvæðagreiðslu

Eftir upplausn Sovétríkjanna fengu Kasakar aðild að Knattspyrnusambandi Asíu árið 1992, eftir að hafa valið það framyfir Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, í atkvæðagreiðslu. Þeir gátu valið á milli þar sem landið er í báðum heimsálfunum, rétt eins og Tyrkland sem líka er með lítið brot af sínu landsvæði innan Evrópu.

Kasakar tóku í framhaldi af því þátt í undankeppni HM með Asíuþjóðum, fyrir HM 1998 og 2002. Kasakar komust í lokaúrslit fimm Asíuþjóða um sæti á HM 1998 en urðu þar neðstir, á eftir Suður-Kóreu, Japan, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Úsbekistan. Í næstu undankeppni HM tókst þeim ekki að komast upp úr undanriðli.

Árið 2002 flutti Kasakstan sig yfir í UEFA og hefur talist til Evrópuþjóða í fótboltanum síðan. Flutningurinn átti sér stað of seint til kasaska liðið gæti tekið þátt í undankeppni EM 2004 en Kasakstan þreytti frumraun sína í undankeppni Evrópu fyrir HM 2006 og síðan fyrir EM 2008.

Stærsti sigurinn er gegn Serbum

Stærsti sigurinn í sögu knattspyrnulandsliðs Kasakstan eftir flutninginn yfir í Evrópu vannst gegn Serbum, 2:1, í undankeppni EM haustið 2007. Í sömu keppni lögðu þeir Armena á útivelli, 1:0, og gerðu tvö jafntefli við Belga, 0:0 á útivelli og 2:2 á heimavelli.

Þá unnu Kasakar tvo sigra á Andorra, 3:0 og 3:1, í undankeppni HM 2010. Þeir hafa einnig sigrað Aserbaídsjan og Færeyjar en þá eru upptaldir þeir sem leikir sem þeir hafa unnið í undankeppni HM í Evrópu og EM frá því þeir tóku þar fyrst þátt árið 2004. Samtals sex sigrar í sextíu leikjum á þessum fyrsta áratug þeirra sem Evrópuþjóð í fótboltanum.

Kasakstan er í 138. sæti af 209 aðildarþjóðum á heimslista FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, og er í 49. sæti af 53 aðildarþjóðum UEFA sem eru á listanum.

Tíu stiga frost í Astana skiptir ekki máli

Lega Kasakstan, lengst inn á miðju meginlandi Evrasíu, þýðir að þar er mikill munur á sumri og vetri. Núna í lok mars er enn vetur og hörkufrost í Astana en spáð er 10 stiga frosti á laugardaginn, þegar leikurinn fer fram og um 20 stiga frosti um nóttina. Á sumrin er hitinn oft í kringum 30 gráður.

Þessum aðstæðum hafa Kasakar sigrast á með því að byggja glæsilegan þjóðarleikvang í Astana, með færanlegu þaki, sem ekki er dregið frá fyrr en farið er að vora. Völlurinn rúmar um 30 þúsund áhorfendur og þar inni er 15 til 20 stiga hiti þó grimmdarfrost sé utan dyra. Áhorfendur á leik Kasakstan og Íslands geta því látið fara vel um sig á laugardagskvöldið en leikurinn fer fram klukkan 21 að staðartíma og verður sannkölluð kvöldskemmtun fyrir íbúa höfuðborgarinnar, þó klukkan verði þá aðeins 15 á miðjum degi á Íslandi.

Kort af Kasakstan.
Kort af Kasakstan.
Hér sést vel staðsetning Kasakstan.
Hér sést vel staðsetning Kasakstan.
Astana Stadium - leikvangurinn glæsilegi með færanlega þakinu sem verður …
Astana Stadium - leikvangurinn glæsilegi með færanlega þakinu sem verður yfir vellinum á laugardagskvöldið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert