Getur orðið gríðarleg stemning

Astana Arena, leikvangurinn glæsilegi í höfuðborg Kasakstan. Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi …
Astana Arena, leikvangurinn glæsilegi í höfuðborg Kasakstan. Ómar Smárason fjölmiðlafulltrúi KSÍ er maðurinn á vellinum. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Ekki er ljóst hversu margir áhorfendur verða á leik Kasakstans og Íslands í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu á morgun en þeir verða væntanlega einhvers staðar á bilinu 10 til 20 þúsund.

Leikvangurinn yfirbyggði, Astana Arena, rúmar 30 þúsund manns og er mikil gryfja þegar hann er fullur, eins og félagslið í Kasakstan hafa upplifað í Evrópukeppni þegar vel hefur gengið á síðustu árum.

Þar var t.d. gríðarleg stemning þegar Shakhtar Karagandy vann óvæntan sigur á Celtic frá Skotlandi, 2:0, í forkeppni Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum. Og þó kemur Shakhtar frá borginni Karagandy sem er í 200 kílómetra fjarlægð frá Astana.

Samkvæmt því sem fulltrúar KSÍ hafa heyrt frá kollegum sínum er gert ráð fyrir 10-12 þúsund áhorfendum. Kasymshan Mukatajev, aðstoðarritstjóri fótboltanetmiðilsins fanatik.kz, sagði hinsvegar við Morgunblaðið í gær að hann ætti frekar von á 15 til 20 þúsund manns á leikinn. Ekki síst vegna þess að búast má við fimm til sjö leikmönnum heimaliðsins, Astana, í byrjunarliði Kasakstan á morgun, en Astana er ríkjandi meistari og trónir á toppi úrvalsdeildarinnar þegar fjórum umferðum er lokið.

Framhliðin á Astana Arena.
Framhliðin á Astana Arena. mbl.is/Víðir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert