Stjarna Kasaka fékk ekki leyfi gegn Íslandi

Alexander Merkel í búningi Watford á síðasta keppnistímabili.
Alexander Merkel í búningi Watford á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd/Franziska

Alexander Merkel, miðjumaður Grasshoppers í Sviss og fyrrverandi leikmaður AC Milan, Udinese, Genoa og Watford, spilar ekki með Kasakstan gegn Íslandi annað kvöld vegna þess að hann er ekki kominn með keppnisleyfi frá FIFA.

Þetta upplýsti umboðsmaður Merkels, Vladimir Dejneka, í viðtali við kasaska fótboltanetmiðilinn Fanatik.kz í dag. Áður höfðu kasaskir fjölmiðlar greint frá því að Merkel gæti ekki spilað gegn Íslandi vegna meiðsla en síðan vakti það furðu að Merkel spilaði í vikunni með varaliði Grasshoppers og skoraði mark.

Miklar vonir höfðu verið bundnar við þátttöku Merkels í leiknum gegn Íslandi og hann hafði sjálfur lýst því yfir hve spenntur hann væri að spila fyrir hönd fæðingarlands síns en hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Þýskalands og spilaði 17 ára gamall með AC Milan í ítölsku A-deildinni.

„Ég veit ekki hvaðan þessar fréttir koma um að Alex sé meiddur. Þetta eru rangar fréttir því hann er fullfrískur. Alex má einfaldlega ekki spila fyrir Kasakstan fyrr en opinber staðfesting á því kemur frá FIFA. Hún mun koma en það tekur tíma. Hann getur ekki heldur spilað vináttulandsleikinn gegn Rússlandi því það þarf líka leyfi til þess. Trúið mér, Alex vill spila fyrir Kasakstan og hann er í miklu uppnámi yfir því að fá ekki að taka þátt í leikjunum gegn Íslandi og Rússlandi. Hann hugsar mjög vel til liðsins, leikmannanna og þjálfarans, og óskar innilega eftir sigri,“ sagði Dejneka.

Spurður hvers vegna Merkel hefði þó ekki komið til móts við landsliðið og æft með því svaraði umboðsmaðurinn: „Hvers vegna hefði Grasshoppers átt að leyfa honum það? Knattspyrnusamband Kasakstans gat ekki óskað eftir því að fá hann fyrr en leyfið kæmi frá FIFA. Þetta er allt spurning um að fara eftir reglum, ekki hvað hver vill eða vill ekki. Alex er heill heilsu og vill spila fyrir hönd Kasakstans eins fljótt og auðið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert