Tékkar endurheimtu toppsætið í blálokin

Tomas Rosicky og Igors Tarasovs eigast við í dag.
Tomas Rosicky og Igors Tarasovs eigast við í dag. AFP

Lettland var grátlega nálægt því að skella Tékkum á þeirra eigin heimavelli í A-riðli undankeppni Evrópumótsins, riðli Íslands, nú í kvöld. Tékkar höfðu unnið alla leiki sína hingað til og hefðu getað náð þriggja stiga forskoti með sigri, Ísland jafnaði þá að stigum með sigrinum á Kasakstan fyrr í dag.

Mark Aleksejs Visnakovs eftir hálftíma leik virtist ætla að tryggja Lettum sigurinn, en heimamenn jöfnuðu metin á lokamínútu venjulegs leiktíma og var þar að verki Vaclav Pilar. Lokatölur 1:1.

Tékkar endurheimtu því toppsætið og eru nú með þrettán stig, einu stigi meira en Ísland, sem tyllti sér á toppinn á hagstæðari markatölu eftir sigurinn fyrr í dag. Lettar eru enn án sigurs í næstneðsta sætinu með þrjú stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert