Læknirinn sagði af sér eftir tapið

Pep Guardiola var ekki sáttur við að Franck Ribéry væri …
Pep Guardiola var ekki sáttur við að Franck Ribéry væri enn á sjúkralistanum. AFP

Læknir knattspyrnuliðs Bayern München til 38 ára, Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt, hefur sagt af sér í kjölfarið á ósigri liðsins gegn Porto í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöldið og segir að læknaliði félagsins hafi verið kennt um hvernig fór.

„Af óútskýrðum ástæðum var læknaliðinu aðallega kennt um tapið. Traustið er ekki til staðar lengur, það hefur verið varanlega skaðað," sagði Müller-Wohlfarht við þýska fjölmiðla.

Franck Ribéry, Arjen Robben, Bastian Schewinsteiger og David Alaba misstu allir af leiknum vegna meiðsla. Pep Guardiola, þjálfari Bayern, hafði lýst yfir furðu á því hvers vegna Ribéry væri enn á sjúkralista vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir 11. mars og áttu aðeins að þýða nokkurra daga fjarveru frá æfingum og keppni.

Porto vann leikinn 3:1 og Bayern á því erfitt verkefni fyrir höndum í heimaleiknum í átta liða úrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert