Spilar hér þar til hann ákveður að hætta

Lionel Messi reynir markskot með tilþrifum í leiknum gegn Valencia …
Lionel Messi reynir markskot með tilþrifum í leiknum gegn Valencia um síðustu helgi. AFP

Josep Maria Bartomeu, forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, segir að Argentínumaðurinn Lionel Messi geti leikið með félaginu þar til hann ákveði sjálfur að leggja skóna á hilluna.

Messi kom 13 ára gamall Barcelona og um síðustu helgi skoraði hann 400. mark sinn fyrir aðallið félagsins í 2:0 sigri  gegn Valencia. Eftir nokkra lægð, miðað við hans gæði og stöðu sem eins albesta knattspyrnumanns heims um árabil, hefur Messi komið sterkur upp á ný eftir því sem liðið hefur á tímabilið.

„Messi er leiðtoginn hjá okkur og hann er besti knattspyrnumaður heims  frá upphafi. Hér á hann heima þar til hann ákveður sjálfur að hætta að spila fótbolta," sagði forsetinn í viðtali við útvarpsstöðina Radio Monte Carlo í dag.

Sá dagur sem Lionel Messi leggur skóna á hilluna er væntanlega langt undan því þrátt fyrir allt sem hann hefur afrekað til þessa er hann enn aðeins 27 ára gamall. Hann hefur fjórum sinnum verið valinn besti knattspyrnumaður heims, sex sinnum orðið spænskur meistari og þrisvar Evrópumeistari með Barcelona, ásamt því að vinna heimsbikar félagsliða tvisvar með liðinu.

Messi og félagar mæta París SG í seinni leik liðanna í átta liða liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Camp Nou í kvöld en staða Barcelona er afar vænleg eftir 3:1 sigur í fyrri viðureigninni í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert